Saman á Melunum í sumar

Hestamannafélögin Léttir og Funi hafa ákveðið að halda fjölskyldudaga á Melgerðismelum í sumar.

Yfirskriftin verður:

“Saman á Melunum.”

Dagskráin er í mótun, en stefnt er að því að fara í félagsferð á vegum Ferðanefndar Léttis frá Kaupangsbökkum síðdegis á föstudeginum 26.  júlí og koma á Melgerðismela um kvöldið þar sem boðið verður upp á rjúkandi kjötsúpu að hætti Funamanna.

Á laugardeginum 27 júlí verður mikið um að vera og drög að dagskrá hljóða svo:

  • Morgunverður í Funaborg.
  • Forkeppni í tölti: T3 og T7 – kappreiðum: skeiði, stökki og brokki. 
  • Nýir startbásar Léttis og Funa vígðir af þessu tilefni.
  • Vöfflukaffi þar sem fulltrúum sveitarstjórna Eyjafjarðarsveitar og Akureyrarbæjar verður boðið .
  • Sameiginlegur reiðtúr
  • Grillveisla aldarinnar
  • Úrslit í Tölti
  • Varðeldur, söngur og samvera

Á Sunnudeginum 28 júlí verður morgunverður í Funaborg og svo lagt af stað heimleiðis um hádegi.

Eins og allir vita er við Funaborg á Melgerðislmelum frábær tjaldaðstaða og þar er stefnt að því að búa til félagsþorp Léttis og Funa og njóta þeirra gæða sem Melgerðismelar hafa uppá að bjóða.

Munum að það vorum við, félagar Léttis og Funa nú sem fyrrum sem sköpuðum  staðinn og því ekki að njóta hans í góðum félagskap og samveru.

Unnið er að því að fá styrktaraðila á þessa hátíð og verður keppnis/þátttökugjöldum stillt í algjört hóf.

Munið að taka helgina frá kæru Funa og Léttisfélagar.

Undirbúningsnefndin.

Deila: