Hestamannafélagið Funi var stofnað 11. júní 1960. Það var reist á grunni Hrossaræktarfélags Eyjafjarðar sem starfaði í sveitum sunnan Akureyrar og á Svalbarðsströnd en var leyst upp vegna krafna tímans um breytt fyrirkomulag. Stofnfélagar voru 58 og eru nokkrir þeirra heiðursfélagar Funa í dag. Funi starfar á hefðbundnum vettvangi hestamennsku og hestaíþrótta. Má þar telja gæðingamót, bæjakeppni, kvenna- og karlareið og fræðslustarfsemi. Reiðnámskeið hafa verið fastur liður í starfsemi félagsins um árabil og á hverju ári er rekinn reiðskóli fyrir börn og unglinga í Eyjafjarðarsveit, þar sem hestlausum krökkum er séð fyrir reiðskjótum. Á félagssvæði Funa stendur hrossarækt á gömlum merg enda er þar fjöldi viðurkenndra hrossaræktarbúa.