Fundur vegna utanlandsferðar

Fimmtudagskvöldið 24. ágúst verður haldinn fundur í Funaborg kl. 20:00 er varðar fyrirhugaða utanlandsferð sem kynnt var á æskulýðsfundi í vor. Um er að ræða ferð til Stokkhólms í Svíþjóð fyrir félagsmenn á aldrinum 13-18 ára. Munum við m.a. fara á Stockholm international horseshow. Fararstjórar verða Anna Sonja og Sara Arnbro. Lagt verður af stað frá Akureyri fimmtudaginn 30. nóv. og lagt af stað heim mánudaginn 4. des. 2017. Þeir sem hafa áhuga á að koma með í þessa ferð verða að mæta á fundinn ásamt foreldi/forráðamanni til að hægt sé að ljúka skipulagningu ferðarinnar og í framhaldinu staðfesta þáttöku. Endilega nýtið tímann fram að fundi til að kanna hvort þessar dagsetningar henti með tilliti til t.d. skóla og vinnu.

Þeir sem komast ómögulega á fundinn en hafa samt áhuga á að koma með mega hafa samband við Önnu Sonju í síma 8461087

Sjáumst!
Anna Sonja og Sara

Fákaflug 2017

TREC mót Funa – helgin gerð upp

Hulda Siggerður og Blár rekja bolta í þrautabraut

 

 

 

 

 

 

 

 

Fyrsta TREC mót í fullri lengt hérlendis var haldið á vegum hestamannafélagsins Funa á Melgerðismelum fyrstu helgina í júlí, en Funi hefur farið fremst í flokki hérlendis við innleiðingu keppnisgreinarinnar á Íslandi. Mótið var á vegum æskulýðsnefndarinnar og þáttakendur á aldrinum 7-18 ára. Mótið var haldið í framhaldi af námskeiði sem hófst í maí og var undir leiðsögn Önnu Sonju Ágústsdóttur, sem einnig hélt utan um mótshaldið. Er þetta fjórða árið sem slíkt TREC námskeið, ásamt einhverskonar keppni, er haldið hjá Funa en í fyrsta sinn sem ráðist hefur verið í að bjóða upp á allar þrjár keppnisgreinarnar sem tilheyra TREC.

Ólöf Milla tók þátt í þrautabrautinni, en aðeins var boðið upp á þrautabraut í pollaflokki. Hér teymir hún Vála yfir hindrun.

Gunnhildur Erla og Kilja fara á pall í þrautabraut

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mótið hófst á laugardegi með keppni í þrautabraut. Þar spreyttu keppendur sig í 16 mismunandi þrautum, ýmist á baki eða með hestinn í hendi. Fyrir hverja þraut er mest hægt að fá 10 stig og því 160 stig í pottinum fyrir þessa grein. Eftir þrautabrautina stóð efstur í unglingaflokki Jakob Ernfelt Jóhannesson á Grana frá Kálfsskinni, 17 vetra, með 148 stig. Í barnaflokki var það Jóhann Ben Jóhannsson sem tók forystuna á Sól frá Dalvík, 18 vetra, með 123 stig.

María og Sóley fara undir slár á stökki

 

 

 

 

 

 

 

Ágúst Máni og Máney tilbúin að spretta úr spori úr kyrrstöðu í þrautabraut

 

 

 

 

 

 

 

 

Sama dag, í beinu framhaldi af þrautabrautinni, var keppt í stjórnun hraða á gangtegundum. Þar mættu knapar aftur með sömu hross, en óheimilt er að skipta um hross eða búnað milli greina. Snýst þessi grein um að sýna fram á stjórnun knapa og jafnvægi hestsins, fyrst á hægu stökki og svo til baka á hröðu feti á afmörkuðum kafla á beinni braut, venjulega 150 metra langri. Þar eru 60 stig í pottinum, 30 fyrir hvora gangtegund, og fæst mest fyrir að fara sem hægast á stökki og sem hraðast á feti en stig eru reiknuð út frá tímatöku.

Írena og Títus á hægu stökki í gangtegundakeppni

 

 

 

 

 

 

 

 

Tolli hesturinn ekki á tiltekinni gangtegund leiðir það til 0 stiga fyrir þá gangtegund. Voru það Hulda Siggerður Þórisdóttir og Blár frá Felli, 5 vetra, sem fengu flest stig í unglingaflokki í gangtegundakeppninni, eða 47 stig. Dugði það þó ekki til að ná forystunni af Jakobi í heildarstigakeppninni. Í barnaflokki voru það Bergþór Bjarmi Ágústsson og Hrafntinna frá Kálfagerði, 15 vetra, sem voru efst í gantegundakeppninni, með 35 stig, sem dugði þeim til að taka forystuna í sínum flokki.

Bergþór Bjarmi og Hrafntinna á hröðu feti í gangtegundakeppni

 

 

 

 

 

 

 

 

Á sunnudeginum var keppt í ratleik sem reynir á þol hrossanna, sem og einbeitingu og útsjónasemi knapa. Knapar fengu kort til að fylgja og var leiðin um 24 km löng, í fjölbreyttu landslagi þar sem m.a. var riðið í gegnum afrétt og yfir á. Leiðinni var skipt upp í 5 sjálfstæða kafla og var fyrirfram ákveðinn meðalhraði sem þurfti að fylgja hverri leið, yfirleitt 8-9 km/klst. Voru keppendur með úr með GPS búnaði sem gerði þeim kleift að fylgjast með hraða á hverjum tíma, meðalhraða og hámarkshraða (20 km/klst). Dómari gat svo nálgast þessar upplýsingar í úrunum eftir keppni til að gefa mínusstig fyrir frávik. Tvö 5 mínútna stopp voru á leiðinni þar sem tékkað var á ástandi hrossanna og fengu þau ekki leyfi til að halda áfram nema með leyfi dómara sem lagði mat á hve móð hrossin voru. Þá voru einnig tvö 20 mínútna stopp þar sem sprett var af hrossunum. Venjulega er hver knapi fyrir sig í þessari grein (sem miðast fullorðins- og ungmennaflokk) en hér voru knapar, öryggisins vegna, paraðir tveir og tveir saman eftir líkamlegu ástandi hrossanna (holdafari, aldri og formi).

Bergþór og Jóhann koma að fyrsta stoppustöð ratleiksins

 

 

 

 

 

 

 

 

240 stig eru í pottinum fyrir þessa stærstu grein keppninnar og komu þrír knapar í unglingaflokki í mark með fullt hús stiga: Hulda Siggerður á Blá, María Damalee á Sóley frá Kálfagerði, 10 vetra, og Ágúst Máni Ágústsson á Máney frá Samkomugerði,  16 vetra. Hulda Siggerður tryggði sér með því sigur í unglingaflokki, með 407 stig í heildina. Til gamans má geta að þau Blár voru yngsta parið í unglingaflokki, Hulda aðeins 15 ára á þessu ári og blár aðeins 5 vetra. María Damalee endaði í öðru sæti með 368 stig og Ágúst Máni í því þriðja með 353 stig.

Jakob og Írena koma að þriðju stoppustöð ratleiksins

 

 

 

 

 

 

 

Í barnaflokki komu Bergþór Bjarmi og Jóhann Ben báðir í mark með 203 stig og skilaði það Bergþóri sigri í barnaflokki með 351 stig í heildina. Jóhann endaði í öðru sæti með 326 stig og í þriðja sæti voru Írena Ruta Sævarsdóttir og Títus frá Dalvík, 21 vetra, með 150 stig.

1. – 3. sæti í unglingaflokki með verðlaunin frá Gömlu garðyrkjustöðinni.

1. – 3. sæti í barnaflokki með verðlaunin frá Gömlu garðyrkjustöðinni. Frá vinstri: Bergþór, Jóhann og Írena.

Glæsilegur hópur. Frá vinstri: Jakob, Bjarmi, Ágúst, María, Jóhann, Hulda, Írena og Gunnhildur

 

TREC mót, æskulýðsdagar og fleira skemmtilegt!

Það er heilmikið framundan hjá okkur í æskulýðsstarfinu í júlí!

 

 

 

 

 

 

 

 

Næstu helgi verður haldið TREC mót sem stendur bæði yfir laugardag (1. júlí) og sunnudag (2. júlí). Keppt verður í þrautabraut og gangtegundatímatöku á laugardeginum en í nokkurskonar víðavangs-ratleik á sunnudeginum. Er þetta í fyrsta sinn sem keppt er í öllum þremur greinunum sem tilheyra TREC hér á Melgerðismelum, ef ekki bara á Íslandi! Hvetjum við fólk til að taka laugardaginn frá en við stefnum á að þrautabrautin byrji kl. 11:30 og verður gangtegundakeppnin í beinu framhaldi af því. Víðavangs-ratleiknum er erfiðara að fylgjast með því þar fylgja keppendur leið á korti fleiri kílómetra. Að ratleiknum loknum verður heitt á kolunum í Funaborg og allir velkomnir að koma með gott á grillið og fylgjast með verðlaunaafhendingu. Ekki er komin tímasetning á grillið ennþá þar sem ekki er enn búið að meta hve langan tíma það tekur að ríða leiðina sem lögð verður fyrir 😉

Sunnudaginn 9. júlí stefnum við á upphitunarreiðtúr fyrir æskulýðsdagana, en sá verður auglýstur nánar síðar.

Æskulýðsdagarnir sjálfir verða að vanda þriðju helgina í júlí, að þessu sinni 14. – 16. júlí og má ekkert barn eða foreldri láta það framhjá sér fara! Nánar um það HÉR.

Reiðnámskeið fyrir byrjendur verður 19.-21. júlí og mun koma auglýsing um það í sveitapóstinum í vikunni fyrir.

Sumarkveðja frá æskulýðsnefnd Funa 🙂

Ungfolahólf Náttfara

Ungfolahólf Náttfara

Hrossaræktarfélagið Náttfari býður upp á hagabeitfyrir ungfola,  fyrir smelltu á linkinn fyrir meiri upplýsingar Ungfolaholf_Nattfara

Stjórn Náttfara

Fjórðungsmót Vesturlands

Fjórðungsmót Vesturlands verður haldið í Borgarnesi 28. júní til 2. júlí 2017.  Í gæðingakeppni eiga keppnisrétt félagar í hestamannafélögum á Vesturlandi, á Vestfjörðum, í Húnavatnssýslum og í Skagafirði.

Á mótinu verður einnig keppt í þessum greinum og er þar um opna keppni að ræða þ.e. allir geta tekið þar þátt:

 1. Tölt opinn flokkur
 2. Tölt 17 ára og yngri
 3. 100 metra fljótandi skeið
 4. 150 metra skeið
 5. 250 metra skeið

 

 • Skráningargjald í tölt er 7.000 kr. á hvern hest en 3.500 kr. á hvern hest í skeiðgreinum
 • Skráning í þessar greinar hefst sunnudaginn 11. júní og lýkur á miðnætti sunnudaginn 18. júní og fer hún fram í gegnum SportFeng
 • SportFengsnúmer mótsins er IS2017LM0132.
 • Skráningargjöld skal greiða á reikning:
  • kt. 450405-2050
  • banki: 0326-26-002265
  • kvittun fyrir greiðslu skráningargjalda skal send á netfangið thoing@centrum.is Mjög áríðandi að kvittun sé send á þetta netfang
 • Í lok skráningarferlisins koma fram upplýsingar um greiðslu skráningargjalda.

 

Peningaverðlaun verða fyrir fyrsta sæti í tölti opnum flokki og 100 m fljótandi skeiði.

Æskulýðsfundur

Við ætlum að hittast á sunnudaginn (7. maí) kl. 12:00 í Funaborg og ræða fyrirhugaða starfsemi sumarsins, reiðnámskeið, æskulýðsdaga og hugsanlega utanlandsferð fyrir unglingana okkar (13-18 ára) í haust/vetur. Pizza veður í boði Funa handa öllum sem mæta 🙂 Við hvetjum alla áhugasama hestakrakka/unglinga til að mæta og gaman væri að sjá sem flesta foreldra einnig! Tökum við skráningu á annasonja@gmail.com svo við getum áætlað magn af pizzu 😉

Nýir félagar ávalt velkomnir. Það kostar ekkert fyrir yngri en 18 ára að ganga í félagið og það er leyfilegt að vera í fleirum en einu hestamannafélagi 🙂

 

Sjáumst!

Æskulýðsnefnd Funa

Aðalfundur Funa

Aðalfundur hestamannafélagsins Funa verður haldinn í Funaborg á

Melgerðismelum fimmtudagskvöldið 23. mars nk. kl. 20.30.

Dagskrá: Venjuleg aðalfundarstörf.

Nýjir félagar velkomnir.

Kaffiveitingar.

Stjórnin.

Mótaröð æskunnar

Æskulýðs- og mótanefnd Léttis hefur ákveðið að blása til opinnar mótaraðar fyrir æskuna.
Mótaröðin er ætluð börnum, unglingum og ungmennum.
Keppt verður á eftirtöldum dögum.
Fjórgangur V1 – 25. febrúar kl. 13:00, skráning er hafin
Fimmgangur F1– 12. mars (a.t.h. að þessi dagsetning getur breyst)
Tölt T1 – 1. apríl
Slaktaumatölt T2 og skeið – 14. apríl
Skráningargjald er 3500 kr. og greiðist við skráningu.
Skráningu í fjórganginn líkur á miðnætti þriðjudaginn 21. febrúar og fer skráning fram á eftirfarandi link http://skraning.sportfengur.com/Skraningkort.aspx?mode=add
Einungis er hægt að skrá einn hest á knapa í hverja grein.
Æskulýðs- og Mótanefnd Léttis 2017

Komið að skýrsluskilum

Frestur vegna skila á haustskýrslum hefur verið framlengdur til 1. desember.  Sjá hér frétt þess efnis: http://www.mast.is/frettaflokkar/frett/2016/11/21/Frestur-til-ad-skila-haustskyrslum-framlengdur/