Lög

1. grein

Félagið heitir Hestamannafélagið Funi og er aðili að U.M.S.E.

Starfssvæði félagsins er Eyjafjarðarsveit. Heimili þess og varnarþing er sama og formanns herju sinni.

2. grein

Markmið félagsins er að iðka hestaíþróttir, almenna útivist og þjálfun með tilliti til sérhæfni íslenska hestsins.

Markmiði sínu hyggst félagið ná með því meðal annars að:

a)   gangast fyrir kennslu og þjálfun fyrir knapa og hesta,

b)   efna til sýninga og keppni hvers konar,

c)   efla alhliða áhuga félagsmanna og almennings fyrir hestamennsku með fræðslu og upplýsingastarfsemi,

d)   stuðla að bættri aðstöðu til iðkunar almennrar hestamennsku.

3. grein

Félagsmaður getur hver sá orðið, sem hlýtur samþykki stjórnar. Ágreining um inngöngu getur hver og einn borið undir aðalfund. Unglingar innan 16 ára hafa ekki kosningarétt, enda greiða þeir ekki fullt árgjald.

4. grein

Árgjald félagsmanna skal ákveðið fyrir hvert starfsár á aðalfundi. Gjalddagi þess skal vera 15. mars og eindagi þess 15. apríl. Séu félagsmenn ekki skuldlausir við félagið á eindaga, missa þeir öll félagsleg réttindi í félaginu, þar með keppnisrétt, þar til skuldin er að fullu greidd. Félagsmenn sem ekki hafa greitt sitt árgjald um áramót, verða sjálfkrafa strikaðir út af félagaskrá.

Fyrir alvarlegt brot gegn lögum félagsins er stjórn heimilt að víkja mönnum úr félaginu. Brottviknum félaga er heimilt að áfrýja máli sínu til aðalfundar.

5. grein

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

6. grein

Stjórn félagsins skipa fimm menn, formaður, ritari, gjaldkeri og tveir meðstjórnendur.

Formann, ritara og gjaldkera skal kjósa sérstaklega hvern fyrir sig, að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Varamenn skulu vera tveir. Allir stjórnarmenn, aðalmenn og varamenn skulu kosnir skriflega og til tveggja ára í senn.

Formaður þarf að ná þriðjungi greiddra atkvæða, ef ekki skal kosið aftur um þá tvo sem efstir voru að atkvæðum. Ávallt skal kjósa skriflega í stjórn, þó menn gefi kost á sér til endurkjörs. Kjósa skal tvo skoðendur reikninga þriðja hvert ár. Formaður skal sjálfkjörinn fulltrúi á ársþing L.H. Varamenn skulu boðaðir á stjórnarfundi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Komi til atkvæðagreiðslu í fjarveru aðalmanna, taka varamenn sæti í aðalstjórn í samræmi við atkvæðafjölda.

7. grein

Eftirtaldar fastanefndir og ráð eru í félaginu: húsnefnd, mótanefnd, barna- og unglingaráð, skemmtinefnd, reiðveganefnd, ferðanefnd og fræðslunefnd. Fyrst talda nefndin er skipuð 7 mönnum, þrjár næstu eru skipaðar 5 mönnum og síðustu þrjár eru skipaðar 3 mönnum. Nefndarmenn eru kosnir til tveggja ára í senn á aðalfundi, þó þannig að aldrei gangi úr nefndinni nema naumur meirihluti hverju sinni. Stjórn félagsins er heimilt að skipa tengiliði við nefndirnar. Stjórnin kallar nefndir saman til fyrsta fundar, en að öðru leyti skipta nefndarmenn með sér verkum.

8. grein

Aðalfund skal halda eigi síðar en í febrúar ár hvert. Boða skal til aðalfundar í fjölmiðlum með minnst viku fyrirvara og er fundurinn lögmætur, sé löglega til hans boðað.

Störf aðalfundar eru:

a)   Skýrsla stjórnar.

b)   Afgreiðsla reikninga.

c)   Lagabreytingar ef einhverjar eru.

d)   Gerð starfsáætlun fyrir næsta ár.

e)   Tekin ákvörðun um árgjald.

f)   Kosningar.

g)   Önnur mál.

9. grein

Formaður boðar stjórnarfundi eins oft og þurfa þykir og stjórnar þeim. Skylt er honum einnig að boða stjórnarfundi, ef þrír stjórnarmenn óska þess. Stjórnarfundir eru lögmætir ef minnst þrír stjórnarmenn eru mættir á fund. Stjórn félagsins boðar félagsfundi eins oft og þurfa þykir, eða ef 10 félagsmenn, hið minnsta æskja þess og tilgreina skriflega fundarefni. Félagsfundur er lögmætur ef 10 félagsmenn sitja hann.

10. grein

Lögum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi, enda sæki hann 1/5 hluti atkvæðisbærra félagsmanna hið minnsta og 2/3 fundarmanna samþykki breytinguna. Lagabreytingar sem félagsmenn óska eftir að bornar verði upp á aðalfundi, skulu sendar félagsstjórn fyrir 31. desember fyrir aðalfund. Sama gildir um lagabreytingar sem stjórnin kann að eiga frumkvæðið að.

11. grein

Félagið er eignaraðili að Melgerðismelum og ber stjórna að skipa tvo menn og einn til vara í framkvæmdastjórn Melgerðismela.

12. grein

Tillögur um félagsslit skulu sæta sömu meðferð og lagabreytingar. Komi til þess að félagið verði leyst upp skulu eignir þess vera í vörslu Eyjafjarðarsveitar og ráðstafar sveitarstjórn eigum í sem bestu samræmi við þann tilgang sem félaginu var settur í upphafi. Það telst ekki upplausn þótt félagið sameinist öðru hliðstæðu félagi eða félögum. Ráðstöfunarréttur á fjárreiðum félagsins kemur ekki til framkvæmda fyrr en að minnst tveimur árum liðnum frá upplausn félagsins.

Samþykkt á aðalfundi í febrúar 1996.

Breytt á aðalfundi í febrúar 1998.

Breytt á aðalfundi í febrúar 2000.

Deila:

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *