Fótaskoðun á Landsmóti 2011

Fótaskoðun á Landsmóti hestamanna á Vindheimamelum
2011 og ábendingar varðandi undirbúning.
Járningamannafélag Íslands mun hafa umsjón með fótaskoðun á Landsmóti hestamanna 2011 eins og tíðkast hefur á undanförnum landsmótum. Járningamannafélagið vill hvetja aðstandendur hestamannafélaga að kynna sér vel þær vinnureglur sem fótaskoðunarmenn járningarmannafélagsins hafa viðhaft og jafnframt reyna að framfylgja þeim við úrtökur fyrir LM 2011 þannig að samræmi náist milli úrtakanna og landsmótsins sjálfs. Knapar, eigendur eða umráðamenn þeirra keppnishesta sem tefla á fram eru einnig hvattir til að yfirfara vel járningar og fótabúnað hesta sinna fyrir úrtökur og mót og vera búnir að kynna sér helstur atriði sem farið er eftir við mat á járningu og fótabúnaði. Hægt er að nálgast reglur um járningar og fótabúnað á heimasíðu LH og FEIF hér að neðan.
http://lhhestar.is/static/files/Log_og_reglur/lh_logogreglur_2011.pdf
http://www.feiffengur.com/documents/fipo2011.pdf

Vinnureglur JÍ við fótaskoðun
Við hvetjum alla þá sem eru í minnsta vafa varðandi lögmæti járninga, hlífa/fótabúnaðar að láta taka út bæði hest og búnað fyrir keppni, tímasetning auglýst nánar síðar. Þessar skoðarnir eru eingöngu framkvæmdar af skoðunarmönnum mótsins, þ.e. járningarmannafélaginu. Fótaskoðun fer fram við brautarenda og þegar hestur hefur lokið keppni og er knapa skylt að ríða beina leið af velli að fótaskoðunarstað. Með þessu fyrirkomulagi, þ.e.a.s. þegar skoðað er eftirá, geta knapar einbeitt sér að upphitun hesta sinna og minni hætta er á að hlífðarbúnaður sem oft er vandlega búið að ganga frá losni þegar komið er inn á völlinn. Skylt verður að mæta í fótaskoðun, en ef knapi ríður framhjá fótaskoðunarmanni á þess að láta skoða hest sinn eða búnað má búast við að sýning hans verði gerð ógild.

Fótaskoðunarmenn mæla hlífðarbúnað (hófhlífar, legghlífar), lengd hófa, skeifur (breidd, þykkt) og botna. Mælingar eru farmkvæmdar með skífumáli, eða sérgerðum hóf- og skeifnamæli (blondie). Hlífar og annar fótabónaður eru mældar með nákvæmri og góðri vog. Ábendingar um helstu atriði (gátlisti fyrir járningar keppnishesta eða undirbúning fyrir úrtöku eða landsmót).
• Lengd hófa. Hófar mega að hámarki vera 9,5 cm. Mælt er á tá hófs frá hófhvarfi (þar
sem harður hófur byrjar) og niður að neðsta punkti hófveggjar fyrir miðri tá. Undatekning er á þessari reglu ef hestur er 145 cm eða hærri á herðakamb mælt með stöng en þá er leyfilegt að hófar mælist 10 cm langir. Sönnun þarf þó að liggja fyrir um hæð ef þessari undatekningu er beitt með annaðhvort útprentun frá kynbótadómi eða vottorði frá dýralækni.
• Járningar og skeifur. Hestar skuli vera járnaðir á öllum fjórum fótum og vandað skal
til járninga eins og unnt er. Skeifur eiga að vera samstæðar og úr sama efni. Hámarks þykkt skeifna er 10 mm og hámarks breidd 23 mm. Ef notaðir eru botnar er hámarks breidd 8 mm en leyfilegt er að nota 10 mm skeifur með krönsum án fylliefna. Pottun skeifna er óheimil sem og ásoðnar viðbætur s.s. ásoðnir auka uppslættir.
• Botnar og kransar mega vera að hámarki 5 mm, fleygbotnar mega vera að hámarki 2 mm í tá og 8 mm í hæl. Ef krans er tengdur saman í hæl má tengingin ekki vera meiri en 20 mm breið.
• Fylliefni. Leyfilegt er að nota öll þau fylliefni sem til eru á markaði og ætluð eru til notkunar undir hófa hesta og hefð er fyrir að nota s.s sílikon. Ef notað er fylliefni og net án botns er leyfilegt að fylla niður að neðri brún skeifu en ef botn er notaður með fylliefni t.d. netbotn, má einungis fylla upp þar sem botn nemur.
• Hlífðarbúnaður. Hófhlífar og annar hlífðarbúnaður má að hámarki vega 250 gr. Ekki er leyfilegt að nota aðrar þyngingar. Komi upp ágreiningur um einstaka mál varðandi fótaskoðun skulu yfirdómari, yfirmaður
fótaskoðunar og dýralæknir móts skera úr um framvindu mála.

ATH. Einungis eru talin upp helstu atriði sem höfð eru til viðmiðunar en ekki er verið að túlka heildar reglurnar.

Upplýsingar fengar af landsmót.is

Deila: