Skráning á Unglingalandsmót UMFÍ um verslunarmannahelgina

Opnað hefur verið fyrir skráningu á Unglingalandsmót UMFÍ sem fram fer á Sauðárkróki um verslunarmannahelgina. Eins og undanfarin ár geta keppendur skráð sig sjálfir í gegnum skráningarkerfi Unglingalandsmótsins www.umfi.is. Mótsgjald er kr. 6.000.- á hvern einstakling 11 – 18 ára sem skráir sig til keppni. Aðrir greiða ekkert gjald en þó geta þeir tekið þátt í fjölbreyttri afþreyingu og verkefnum sem boðið verður upp á. Vakin er athygli á því að keppendur þurfa að ganga frá greiðslu keppnisgjalda á netinu til að ljúka skráningu, en í ár verður ekki boðið upp á greiðslu á staðnum.

Mótssetningin verður á föstudagskvöldið 1. ágúst en mótsslit um miðnætti sunnudagsins 3. ágúst. Keppnisgreinarnar að þessu sinni eru: Bogfimi, Dans, Frjálsíþróttir, Glíma, Golf, Hestaíþróttir, Knattspyrna, Körfubolti, Motocross, Siglingar, Skák, Stafsetning, Strandblak, Sund, Tölvuleikur, Upplestur, Íþróttir fatlaðra ( boðið verður upp á keppni í frjálsíþróttum og sundi).

Stefnt er á að opna svæðið formlega upp úr hádegi á miðvikudegi fyrir mót. Tjaldsvæðið verður á Nöfunum fyrir ofan aðalíþróttasvæðið, með aðgangi að rafmagni og snyrtingum.
Gríðarlega fjölbreytt afþreying verður á mótinu og þar munu allir finna eitthvað við sitt hæfi. Fjölmargir landsþekktir skemmtikraftar munu koma fram en einnig verða í boði fjölbreytt verkefni stór og smá. Mótið er vímulaust með öllu.

UMSE verður að venju með samkomutjald á tjaldstæði félagsins. Við munum bjóða til grillveislu laugardagskvöldið 2. ágúst. Veislan er keppendum UMSE að kostnaðarlausu. Aðstandendur og fylgdarfólk eldri en 18 ára, greiða 1.000.-, yngri frítt. Við biðjum alla að taka með sér sína eign diska og drykkjarföng. Óskað er eftir því að þá sem langar að taka þátt í veislunni tilkynni það í tölvupósti: umse@umse.is.

Stefnt er að því að í samkomutjaldi UMSE verði boðið upp á kvöldkaffi keppnisdaganna. Okkur langar að biðja keppendur og aðstandendur þeirra að hjálpa okkur með það og leggja til smáræði í kaffið. Það geta verið kleinur, muffins o.fl. þess háttar.

Þátttaka í skrúðgöngunni er okkur mikilvæg til að koma fram sem einn hópur. Við leggjum mikla áherslu á að allir klæðist UMSE galla í henni. Við biðjum alla sem ætla að keppa og ekki eiga galla að reyna að verða sér út um galla að láni.

Ef einhverjar spurningar vakna eða þörf er á aðstoð vinsamlegast hafið samband við skrifstofu UMSE í síma: 868-3820 eða í tölvupósti: umse@umse.is.

Deila: