Undirritaður hafði samband við Sigríði Björnsdóttur yfirdýralækni hrossasjúkdóma vegna flensunnar sem geysaði á síðasta ári. Nokkur umræða hefur átt sér stað í kjölfar þess að eitt og eitt hross hefur verið með einkenni veikinnar. Svar Sigríðar er fremur hughreystandi og gefur von um að faraldurinn muni ekki lama hrossastofninn að nýju. Svarið sem ég fékk er hér að neðan:
“Faraldur smitandi hósta er genginn yfir þó enn megi finna einstaklinga með einkenni sjúkdómsins. Ég hef mest heyrt af þurrum hósta þegar hross eru tekin á hús og öðrum vægum einkennum. Alla jafna ganga þau yfir á einni – þremur vikum án frekari vandræða.
Við vitum að umhverfisaðstæður geta átt mikinn þátt í að magna smitið upp og því verða menn að vera á varðbergi nú seinni hluta vetrar þegar hesthúsin eru hvað þéttust setin. Ef vart verður við alvarlegri einkenni en að framan eru rakin getur verið rétt að grípa til meðhöndlunar (bakterían er næm fyrir hreinu penicillini) eða taka viðkomandi einstakling úr hesthúsinu. Það getur sem sagt boðið hættunni heim að hýsa „veik“ hross innanum heilbrigð.
Þjálfun hefur í sjálfu sér ekki neikvæð áhrif og það virðist allt í lagi að þjálfa hross með þessi vægu einkenni. Aftur á móti er mikilvægt að stöðva þjálfun ef einkennin verða alvarlegri og þá alveg sérstaklega ef hrossin verða slöpp.
Hér á Hólum voru reiðskólahestarnir settir í fulla brúkun í haust þrátt fyrir að nokkuð bæri á hósta. Ég tók sýni úr þeim en ekkert ræktaðist og þeir voru ekkert meðhöndlaðir. Nú ber lítið á hósta.
Útigangshross þurfa gott atlæti eins og alltaf. Fóður, vatn og steinefni eru grunnþarfirnar auka ormalyfjagjafar. Nauðsynlegt er að holdastiga hrossin reglulega til að tryggja að allir einstaklingar fái nóg.
Lokaskýrsla um sjúkdóminn kemur á heimasíðu Mast nú fyrir helgina og auk þess verður heilmikil umfjöllun í ársskýrslu stofnunarinnar sem einnig er væntanleg innan skamms“.
Kveðja
Valur Hólshúsum