FRAMKVÆMDIR við reiðveg í Eyjafirði standa yfir!

Á síðustu árum hefur verið unnið að uppbyggingu reiðvegar milli Miðbrautar við Hrafnagil og fram á Melgerðismela þar sem áður var enginn vegur. Eftir að bundið slitlag var lagt á þessa leið og umferð aukist hefur þörfin aldrei verið meiri að byggja upp færa reiðleið meðfram akveginum frameftir að vestanverðu. Vinna við að hleypa ríðand umferð meðfram ánni að austanverðu hefur ekki borið tilætlaðan árangur og því enn brýnna að klára þessa tenginguna að vestanverðu. Markmiðið er að byggja upp veg sem þornar snemma og er fær sem lengstan tíma úr árinu og hverfur ekki jafn harðan í gras. Til þess að að gera það þarf að leggja mörg ræsi og byggja upp burðarlag úr grófu efni. Ofan á það kemur fínna efni sem hugsanlega verður mulið með steinbrjót eða heflað til eftir því hvernig efnið leggst. Það hefur ekki verið sett eins mikið fé til reiðvegagerðar í Eyjafirði eins og í ár og á því síðasta en Eyjafjarðarsveit leggur nú krónu á móti hverri krónu sem kemur úr reiðvegasjóði ríkisins. Hingað til hafa verktakar úr sveitinni annast framkvæmdina og hefur verið kappkostað að fá efni sem næst framkvæmdinni til að hún verði sem hagkvæmust. Í haust var vegurinn frá Finnastaðará og að Espigrund byggður upp að hluta og verður haldið áfram alla leið að réttinni að Espigrund á næstu dögum. Þar á eftir verður vegurinn valtaður og fínna efni lagt ofan á. Þar til framkvæmdir hefjast er þessi leið illfær og þegar framkvæmdir hefjast er öll ríðandi umferð á veginum óæskileg. Margir hafa ljáð máls á því hve erfið leiðin er yfirferðar og biðjum við fólk að sýna því skilning að framkvæmdin stendur yfir og jafnframt virða þá sem að verkinu koma og margir í sjálfboðavinnu.

Deila: