Melgerðismelar eru mótssvæði Funa. Melgerðismelar eru vel staðsettir í innanverðum Eyjafirði, einungis 25 km frá höfuðstað Norðurlands, Akureyri.
Melgerðismelar eru ákaflega hlýlegt og gott mótssvæði frá náttúrunnar hendi og raunar alhliða útivistarsvæði. Aðalmótssvæðið er í skjólsælum hvammi á bökkum Eyjafjarðarár. Vellir eru góðir og reynast mjög vel í öllum veðrum.
Skógrækt til skjólmyndunar hófst á Melgerðismelum 1983 og bætt verulega í 1991 og síðar. Skógurinn er nú farinn að breyta ásýnd melanna verulega auk þess að veita skjól.
Veitingaskálinn, Funaborg, er ofan við áhorfendabrekkuna og hefur hann verið einangraður og parketlagður og eru endurbætur á honum langt komnar. Hann er leigður út til ýmiss konar uppákoma, eins og fyrir alls kyns veislur, ættarmót o.þ.h. Þá er gjarnan tjaldað við fjölnotasvæðið vestan við veitingaskálann.
Vestur á melunum sjálfum er stóðhestahús sem rúmar 23 stóðhesta og er það í eigu Funa til helminga á móti nokkrum einstaklingum.
Árið 2008 var lokið við byggingu reiðskemmunnar Melaskjóls við stóðhestahúsið. Skemman var byggð í samvinnu við Hrossaræktarfélagið Náttfara og nokkra einstaklinga. Byggð verða tvö hesthús til viðbótar við reiðskemmuna. Þá er í deiliskipulagi gert ráð fyrir hesthúsahverfi norður á melunum.
Við stóðhestahúsið er hringvöllur ásamt áhorfendabrekku og er hægt að nota hann til upphitunar, sýninga, eða keppni eftir því sem þurfa þykir.
Suður á melnum sunnan og vestan við aðalsýningarsvæðið er nýr og nýstárlegur kynbótavöllur, Náttfaravöllurinn, sem vígður var við góðan orðstír vorið 2009. Völlurinn nýtir skógræktina til að mynda skjól og afmörkun þannig að hrossin sjái fyrir endann á sýningunni. Gott upphitunarsvæði fyrir kynbótahross er á eldri kynbótavelli vestan við nýja völlinn og sunnan við áhorfendabrekku uppi á melnum.