Af Sesselju frá Jökli og Grána

Sesselja Sigurðardóttir var fædd í Leyningi í Saurbæjarhreppi þann 17. apríl 1871 og ólst þar upp við gott bú. Hún kvæntist Vigfúsi Jónssyni frá Hólum 1895 og þau fluttust að Jökli árið 1897 ásamt syni sínum, Jóni Vigfússyni, þá um ársgömlum. Jón lýsir móður sinni svo í tímaritinu Heima er best:

 

Hún… varð þrekmikil til sálar og líkama og lét hlut sinn ógjarnan fyrir nokkrum, allra sízt þeim, sem meiri voru taldir, en réttlæti vildi hún í öllum málum. Smælingjar áttu hjá henni athvarf og skepnum var hún góð. Hreinskilin var hún og vinföst og mat mikils þá sem manndóm sýndu. Málum sínum fylgdi hún fram með röggsemi og var áherzluþungi í orðum hennar, ef henni, líkaði miður.

Þegar þau Sesselja og Vigfús voru heitbundin gaf hann henni lítt taminn gráan fola. Foli þessi þótti erfiður í skapi og hlýddi ekki svo vel. En þeim Sesselju varð vel til vina með tímanum og sagt er að hún hafi unnið traust klársins með hlýju og gangnkvæmu trausti. Klárinn bar nafnið Gráni.

Við leitirnar á Laugarfellsöræfum haustið 1916 hrepptu gánamenn hið versta veður. Sesselja á Jökli vaknaði eina nóttina við veðrið og leit út og sá að það var kominn hríðarbylur. Henni varð hugsað til gánamannana og hesta þeirra á Laugarfellsöræfum sem háðu baráttuna við veðrið, en þeirra á meðal var Jón sonur hennar í sínum fyrstu leitum á svæðinu. Það var þessa nótt sem hjá Sesselju kveiknaði sú hugmynd að byggja skýli fyrir menn og hesta á Laugarfellsöræfum og að skýli þetta skyldi verða minnisvarði um hann Grána. Bæði menn og skepnur komu heil úr leitunum.

Margir lögðu til bæði fé og vinnu við byggingu Grána og þótti það heilmikið afrek á þessum tíma að koma upp skýli sem þessu upp inni á öræfum. Ekki þótti það síður merkilegt að kona hefði staðið fyrir byggingu þess en menn hrifust mjög af dugnaði og framtakssemi Sesselju.

Gráni stendur við bakka Geldingsár á leitarsvæði Eyfirðinga og Skagfirðinga. Réttarhvammur heitir staðurinn en eilítið neðar rennur Geldingsáin í Jökulsá eystri og renna þær saman niður í Austurdal. Við hlið Grána stendur Sesseljubær en saga Sesseljubæjar verður ekki rakin hér.

 

 

Gráni 18. ágúst 2011

Frásögn þessi byggist að hluta á grein sem birtist í tímaritinu Heima er best og byggð er á frásögn Jóns Vigfússonar (syni Sesselju) á Arnarstöðum. Að öðru leiti byggi ég hana á minningum mínum um frásagnir þeirra Eiríks Björnssonar, Klöru Jónsdóttur (barnabarn Sesselju), Gunnlaugs Björnssonar og Örnólfs Eiríkssonar (langömmubarn Sesselju) um þau Sesselju, Grána og byggingu Grána.

 

Hér má sjá þau feðgin Örnólf og Úlfhildi huga að Sesseljubæ þann 18. ágúst 2011

 

Ég læt hér fylgja nokkrar vísur um hann Grána en því miður hef ég ekki nafn höfundar.

Jökuls-Gráni (undir nafni eigandans)

Þú varst, Gráni, gefinn mér

á glöðum vonardegi;

mörg því tengd þér minning er

á mínum ævivegi.

 

Þó að ellin þyngdi fót,

þvarr ei afl úr taugum;

hreyfing hver var fim og fljót,

fjör í hvössum augum.

 

Mig á baki barstu þrátt

bæði um urð og grundir;

með þér hefi ég margoft átt

mestar gleðistundir.

 

Þá ég einatt þagnamál

þýddi bundins vilja,

eitthvað skylt í okkar sál

oft ég þóttist skilja.

 

Þó að ólík ævikjör

okkar virðast megi,

auðnin gefur engin svör

yfir dauðans vegi.

 

Hvert þó virðist brostið band,

er batt þig lífi áður,

máski áttu eitthvert land,

öðrum lögum háður.

 

Fallni Gráni, farðu vel,

fyrst þitt skeið er runnið.

Glaður fagnað gaztu Hel;

gott er dagsverk unnið.

 

Edda Kamilla Örnólfsdóttir (langalangaömmubarn Sesselju)

 

 

Deila: