Fréttaskot stjórnar af starfi Hestamannafélagsins Funa

Funaborg hefur verið mikið í útleigu og notkun í sumar og nettótekjur komnar yfir 600 þús. þökk sé duglegri húsnefnd, tryggð sveitunga og félaga við húsið og svo auðvitað sífellt betra húsnæði. Kvenfélagið Hjálpin lagði til efni og saumaði gardínur í stóra salinn sem hefur auðvitað gjörbreytt útliti hans. Í sumar var sett upp stór varmadæla í sal sem á að skila u.þ.b. 4-faldri hitaorku miðað við það sem hún tekur. Til viðbótar hefur verið sett upp hitastýring í stóra sal þannig að þegar ekki er verið að nota húsið er slökkt á ofnum í sal á meðan hitinn er yfir 15 °C og sem oftast ræður varmadælan við það. Ef það á að halda fund í litla sal má halla rennihurðinni tímabundið. Ef nota á allt húsið er ráðlegt að hækka á hitastillinum í stóra sal daginn áður. Hliðarljós í sal eru komin í gagnið og hægt að deyfa þau ef þurfa þykir. Búið er að yfirfara rafmagn í húsinu og ganga frá öllu í töflu þannig að húsið er virkilega að verða gott. Framundan eru fyrirhuguð rúðuskipti í stóra sal til að spara orku við húshitun. Síðasti áfangi þessara endurbóta er að skipta um hurðir og opnanleg fög, og ljúka frágangi á snyrtingum að sunnan. Endurbætur á félagsheimilinu munu skila sér í ódýrari rekstri á húsinu og tryggari leigutekjum. Eyjafjarðarsveit hefur styrkt efniskaup vegna endurbóta á félagsheimilinu og er sá stuðningur mikils virði fyrir hestamanafélagið sem og ýmsa sem þurfa aðganga að aðstöðu fyrir fundi og samkomur í framfirðinum.

Hesthúsið er enn laust til leigu. Félagsmenn og reyndar hver sem er getur fengið húsið, eða hluta hússins, leigt með aðgang að reiðskemmu til lengri eða skemmri tíma. Endilega látið það berast enda synd að láta svo góða aðstöðu standa ónotaða.

Landsmótsmál 2014 og 2016 eru enn í óvissu en senn hlýtur að draga til tíðinda í þeim málum. Hestamannafélagið Funi bauð fram Melgerðismela fyrir landsmót 2014 og það tilboð stendur óhaggað og undirstrikað enn frekar á félagsfundi 27. nóvember sl. Skjólið og umgjörð svæðisins verður sífellt betra og ekki spillir að hafa alþjóðaflugvöll í næsta nágrenni og 25 þús. manna samfélag í Eyjafirði til að takast á við þetta verkefni. Vonandi verða jákvæðar fréttir af landsmóti 2014 á næstu vikum og Eyfirðingar fái tækifæri til að halda mótið.

Deila: