Fyrsta TREC-mót Funa

Valur á
Valur á Ídu frá Hólshúsum

Hestamannafélagið Funi hóf kennslu í TREC í vetur í Melaskjóli, inniaðstöðu Funa á Melgerðismelum. Námskeiðinu var skipt upp í TREC-1 og TREC-2 og um síðustu helgi var sett á keppni í þrautahluta TREC í tilefni þess að fyrrihluta námskeiðsins var lokið. Keppendur riðu braut sem samanstóð af 11 þrautum þar sem hæst var hægt að fá 10 stig fyrir hverja þraut en hindrunarstökk var aukaþraut sem gaf 5 bónusstig. Alls voru því 105 stig í pottinum en dregið niður fyrir hverja villu sem getið er í leiðara. Ásdís Helga Sigursteinsdóttir hafði umsjón með námskeiði fyrir fullorðna og Anna Sonja Ágústsdóttir fyrir þá yngri og dæmdu þær flokkana eftir því. Fyrirfram var vitað að keppendur myndu skemmta sér vel enda hefur mikil gleði ríkt á námskeiðinu. Það sem kom skemmtilega á óvart var hversu áhorfendavæn keppnin var og spennandi að fylgjast með öllum keppendum enda auðvelt að sjá hvað var vel gert og fyrir hvað var refsað. Þegar mesta spennan var í loftinu mátti heyra saumnál detta.

Anna Rappich og Bleikja (Snotra) frá Saurbæ
Anna Rappich og Bleikja (Snotra) frá Saurbæ

 

Mikil ánægja er með þessa nýjung hjá þeim sem sóttu námskeiðið en einnig hafa kennararnir látið hafa eftir sér að þetta sé skemmtilegasta námskeið sem þær hafi komið að. Á þessu fyrsta námskeiði voru 18 þátttakendur sem mættu á tveggja vikna fresti í verklega tíma en einnig í þrjá bóklega tíma. Þótt létt sé yfir námskeiðinu þýðir það ekki að gleðin sé taumlaus. Þvert á móti reynir verulega á samspil manns og hests. Ábendingar þurfa að vera nákvæmar og fumlausar. Hesturinn hlustar eftir hverri ábendingu knapans og svarar þeim algjörlega mótþróalaust. Helstu atriði í hlýðniæfingum, stökkskiptingar, hvatning, niðurhæging, stjórn gangtegunda og rétt áseta eru meðal þeirra atriða sem knapinn þarf að hafa vald á til að ná sem bestum árangri. Krafan um dýran „keppnishest“ víkur fyrir kröfunni um mjúkan, geðgóðan og vel taminn hest. Hér geta allir tekið þátt og árangri nær sá sem stundar sína hestamennsku af metnaði og natni án tillits til fjárhagslegrar stöðu. Hér er gott tækifæri til að höfða til breiðs hóps hestamanna, frá börnum og byrjendum upp í þrautreynt atvinnufólk. Sannkallað sóknarfæri til eflingar nýliðunnar.

 

Sigríður á Ljósbrá frá Bjargarkoti
Sigríður á Ljósbrá frá Bjargarkoti

 

Á næstu vikum hefst námskeið í TREC-2 þar sem farið verður í fleiri þrautir og gangtegundahlutann. Einnig er gert ráð fyrir að nýjir þátttakendur geti bæst í hópinn við mótun dagskrárinnar.

 

Funi stefnir að uppbyggingu TREC-brautar á Melgerðismelum enda óvíða eins góð aðstaða og þar. Á skógivöxnum melunum eru hólar og leiti, lækir, Eyjafjarðaráin, grösugir balar og víðfeðmir melar sem bjóða upp á óteljandi möguleika til að stunda TREC.

Flokkur fullorðinna: Í aftari röð (með lítil páskaegg) eru Sigmundur, Ævar, Rósa, Steingrímur, Sigríður og Brynjar. Í fremri röð (sem hlutu stærri páskaegg) eru Valur, Anna Sonja og Anna Rappich.
Flokkur fullorðinna: Í aftari röð (með lítil páskaegg) eru Sigmundur, Ævar, Rósa, Steingrímur, Sigríður og Brynjar. Í fremri röð (sem hlutu stærri páskaegg) eru Valur, Anna Sonja og Anna Rappich.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Anna Sonja stolt með nemendur sína í barnaflokki, þá Sindra Snæ og Bergþór Bjarma. 6 börn og unglingar voru í heildina á námskeiðinu en fjögur þeirra forfölluðust og þreyta sröðuprófið seinna.
Anna Sonja stolt með nemendur sína í barnaflokki, þá Sindra Snæ og Bergþór Bjarma. Sex börn og unglingar voru í heildina á námskeiðinu en fjögur þeirra forfölluðust þennan dag og þreyta því stöðuprófið seinna.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Að lokum má hér sjá myndband af parinu sem fór í gegnum þrautina með fæstar villur í flokki fullorðinna, en það voru þær Anna Sonja og Vonarstjarna frá Möðrufelli:

Deila: