Æskulýðsdagar á Melgerðismelum

Æskulýðsdagarnir góðu!

   Æskulýðsdagar á Melgerðismelum tókust vel helgina 20.- 22. júlí sl.  Fámennt en góðmennt var og þeir sem mættu skemmtu sér konunglega við að leysa hinar ýmsu þrautir sem í boði voru. 

   Veðurspáin var ekki hagstæð en við sluppum alveg ótrúlega vel og lentum bara í svolítilli úrkomu á sunnudeginum þegar síðasta keppnin fór fram.  Boðið var upp á gistingu í Funaborg og nýttu nokkrir krakkar sér það og voru alla helgina á Melunum í góðum gír.  Sjá meira

   Á föstudagskvöldinu mættu knáir knapar til leiks í ratleik.  Hann var þannig að þátttakendum var skipt upp í þriggja manna lið og hver hópur þurfti að finna stöðvar og leysa þrautir á hverri stöð, allt í ákveðinni röð.  Hóparnir fóru af stað á mismunandi tíma en tímataka var á hverjum hópi auk þess sem refsistig drógu niður ef þrautirnar voru ekki leystar á réttan hátt eða spurningum svarað vitlaust.  Þrátt fyrir þurrkasumar mátti finna epla-, appelsínu- og bananatré á svæðinu og tilheyrandi ávexti að tína, fax var fléttað, spurningum svarað og naglar reknir í spýtur.  Einn hópur skar sig úr og stóð sig langbest, svaraði spurningum rétt og leysti þrautir vel samhliða því að ná góðum tíma, “græna eplið.” 

   Laugardagurinn hófst með þrautabraut þar sem hver og einn knapi fór með sinn hest gegnum braut á tímatöku.  Fara þurfti um aðþrengt, afmarkað svæði, taka kústskaft úr tunnu og láta í aðra, flytja múl milli staura og stökkva yfir heybagga.  Hópnum var skipt upp í eldri og yngri, allir prófuðu tvisvar og fengu þrír efstu krakkarnir verðlaun í hvorum flokki.  Það var gaman að fylgjast með mikilli einbeitingu við úrlausn þrautanna í kappi við tímann og gat verið mikill munur á ferðum. 

Þrautabraut skift upp fyrir eldri og yngri knapa var mjög skemmtileg og fengu krakkarnir rúman æfingartíma áður en leikar hófust. Þau fengu einnig tvær ferðir og gilti að sjálfsögðu betri tíminn.

Úrslit voru-eldri hópur

1.sæti Eydís Sigurgeirsdóttir 38,98 sek

2.sæti Doris 39,82 sek

3.sæti Þór Ævarsson 57,26 sek

Úrslit yngri hópur 12 ára og yngri

1.sæti Valdemar Sverrisson 54,36 sek

2.sæti Ágúst Máni 1,01,52 mín

3.sæti Anna Kristín Auðbjörnsdóttir 1,05,24 mín.

Eftir hádegið var farið í reiðtúr upp að gömlu Borgarréttinni þar sem nesti var í boði og síðan riðið aftur á Melana um Saurbæ.  Um kvöldið var grillveisla og varðeldur auk verðlaunaafhendinga fyrir þær þrautir sem búnar voru. 

   Æskulýðsdögunum lauk með öðruvísi keppni þar sem krökkunum var skipt upp í ný þriggja manna lið og fór liðið saman inn á völlinn.  Liðið þurfti síðan að skipta með sér verkum þar sem sýna þurfti fet, tölt, brokk og stökk ásamt því að teyma hestinn sér við hlið og fara á og af baki frá báðum hliðum.  Hver og einn úr liðinu þurfti að taka að sér tvö verk og reyndi nú á liðsheildina og að vinna úr því sem í boði var.  Krakkarnir leystu þetta með ágætum en dómarar gáfu fyrir hverja og eina þraut og samanlagður stigafjöldi liðsins réði úrslitum.  Í lokin voru allir kallaðir inn þar sem stigahæsta liðið fékk verðlaun auk þess sem krakkarnir fengu fyrir þátttökuna nammi fyrir sig (popp) og nammi fyrir hestinn sinn (nammiköggla). 

   Æskulýðsnefnd Funa þakkar styrktaraðilum mótsins kærlega fyrir veitingar og verðlaun og krökkunum fyrir jákvæð viðbrögð og skemmtilega helgi.  Sjáumst að ári á Æskulýðsdögum á Melgerðismelum !!!

Deila: