ÝMISLEGT AÐ GERAST Í EYJAFIRÐINUM!

Þessa dagana er margt gott og skemmtilegt um að vera hjá okkur Funamönnum eins og meðfylgjandi myndir bera með sér.

Núna um helgina eru æskulýðsdagar Funa og Léttis á félagssvæði okkar á Melgerðismelum. Ungdómurinn kemur þá saman og skemmtir sér um helgina, gistir í Funaborg og stundar ýmsa leiki, ratleik ofl.

Um næstu helgi eru svo fjölskyldudagarnir Saman á melunum. Er það einnig samvinnuverkefni Funa og Léttis. Um að gera fyrir áhugasama að skoða meðfylgjandi auglýsingu og skrá sig!

Þarna um helgina verður ýmislegt brallað eins og sjá má á meðfygljandi dagskrá. Keppt verður meðal annars í tölti og svo kappreiðum en gaman er að segja frá því að félögin hafa staðið að smíði á glæsilegum startbásum sem þarna verða vígðir.

Salernisaðstaða á Melgerðismelum er nú orðin klár og getur fólk nýtt sér hana án þess að félagsheimilið Funaborg sjálf sé opin, þess má þó geta að enn er ekki alveg búið að klára að tengja heita vatnið svo ef fólk ætlar í sturtu verður hún köld, sem er reyndar mikið í tísku núna og talin mikil heilsubót.

Síðast og alls ekki síst verður að segja frá því að reiðvegurinn frá Hrafnagili fram á Melgerðismela er nú tilbúinn. Undanfarin ár hefur reiðveganefnd Funa skipulagt í samstarfi við Vegagerðina og landeigendur reiðveginn og fengnir hafa verið ýmsir verktakar úr sveitinni með tæki og mannskap að verkinu. Segja má að oft á tímabilinu hafi reiðvegurinn verið ansi slæmur yfirferðar enda verið í vinnslu sem nú er lokið og útkoman frábær. Til að reka smiðshöggið á verkið kom Léttir að verkinu með hluta af sínu reiðvegafé en svona vegur yrði ekki að veruleika nema með framlögum úr reiðvegasjóði sem ríkið úthlutar ásamt svo mótframlagi Eyjafjarðarsveitar.

Léttismenn eru svo einnig að lagfæra til bráðabirgða áningarhólf við Espigrund og Hólshús svo rekstrar geti áð á leið sinni fram fjörðinn.

Deila: