Jónas Vigfússon hlaut Gullmerki ÍSÍ og Sigurður Eiríksson tók sæti varaformanns.
Fimmtudaginn 12. mars fór fram 94. ársþing UMSE. Þingið var haldið í Funaborg á Melgerðismelum, félagsheimili Hestamannafélagsins Funa, en félagið hafði jafnframt umsjón með þinginu. Vel var mætt á þingið og voru þátttakendur alls 45, fulltrúar frá aðildarfélögum og stjórn, gestir og starfsmenn þingsins. Þess má geta að fulltrúar frá 11 af 14 aðildarfélögum voru á þinginu, auk fulltrúa stjórnar og var mætingin um 75% af mögulegum heildarfjölda fulltrúa. Þingið var nú haldið í annað sinn að kvöldi til á virkum degi.
Þingið gekk vel fyrir sig og voru umræður bæði líflegar og málefnalegar. Alls voru 14 tillögur samþykktar, sem munu eiga þátt í að móta starf UMSE næstu árin. Þar ber hæst að stefna UMSE 2015-2020 var samþykkt samhljóða og er ljóst að hún mun móta mikinn hluta starfsins næstu árin.
Að venju fóru fram kosningar á þinginu til stjórnar og varastjórnar, skoðunarmanna reikninga og til sjóðsstjórnar Landsmótssjóðs UMSE. Að þessu sinni var kosið um varaformann og gjaldkera í stjórn UMSE. Sigurður Eiríksson var kjörinn varaformaður UMSE, en Edda Kamilla Örnólfsdóttir gaf ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórninni. Einar Hafliðason var endurkjörinn gjaldkeri. Í varastjórn, voru endurkjörin Guðrún Sigurðardóttir, Umf. Svarfdæla og Gunnar Ingi Ómarsson, Umf. Æskunni. Auk þeirra var Jóhannes Gísli Pálmason, Umf. Smáranum kjörinn í varastjórnina. Aðrir sem sitja í stjórn UMSE eru Bjarnveig Ingvadóttir, formaður, frá Umf. Svarfdælum, Sigrún Finnsdóttir, ritari, frá Umf. Smáranum og Þorgerður Guðmundsdóttir, meðstjórnandi, frá Umf. Samherjum.
Á meðan kvöldverði þingsins stóð voru veittar heiðursviðurkenningar til nokkurra einstaklinga. Anna Kristín Árnadóttir, Sigurður Eiríksson, Óskar Þór Vilhjálmsson, Brynjar Skúlason, Þorgerður Guðmundsdóttir og Kristján Ólafsson hlutu öll starfsmerki UMSE. Jónas Vigfússon, Jóhanna Gunnlaugsdóttir og Marinó Þorsteinsson hlutu öll Gullmerki UMSE. Fulltrúi Íþrótta- og ólympíusambandsins á þinginu, Viðar Sigurjónsson, veitti fyrir hönd ÍSÍ Óskari Þór Vilhjálmssyni Silfurmerki ÍSÍ og Jónasi Vigfússyni Gullmerki ÍSÍ. Haukur Valtýsson, varaformaður Ungmennafélags Íslands veitti Hafdísi Dögg Sveinbjarnardóttur og Stefáni Sveinbjörnssyni starfsmerki UMFÍ og Hringi Hreinssyni Gullmerki UMFÍ. UMSE óskar þessu einstaklingum til hamingju.
Á þinginu var að venju veittur Félagsmálabikar UMSE. Bikarinn er veittur af stjórn til þess félags sem talið er hafa staðið sig vel varðandi innra starf félagsins, bæði varðandi íþróttastarf og almennt félagsstarf. Að þessu sinni hlaut Umf. Þorsteinn Svörfuður bikarinn og tók Ómar Hjalti Sölvason, stjórnarmaður félagsins við viðurkenningunni.
Þinggerðin verður aðgengileg á vefsíðu UMSE, www.umse.is, innan skamms. Sömuleiðis verður hægt að nálgast ársskýrslu UMSE á vefnum. Einnig má geta þess að nýsamþykkt stefna UMSE verður aðgengileg á sama stað.
UMSE færir öllum þeim fulltrúum sem tóku þátt í þinginu þakkir fyrir vel unnin störf. Fráfarandi stjórnarfólki eru þökkuð þeirra störf í þágu UMSE og óskað velfarnaðar. Sérstakar þakkir fá Eyjafjarðarsveit sem studdi dyggilega við þinghaldið og Bústólpi ehf., aðalstyrktaraðili UMSE.