Landsmót Hestamanna 2011

Funi sendi fjóra fulltrúa á Landsmót Hestamanna að Vindheimamelum þetta árið. Mótið var gott og hestakostur með afbrigðum góður. Veður var gott síðustu dagana en fyrstu dagarnir voru næðingssamir á skjóllausum melunum. Okkar fulltrúar stóðu sig vel og báru merki okkar á lofti.

Stefán Birgir í Litla-Garði mætti í A-flokk gæðinga með stóðhestinn og gæðinginn Tristan frá Árgerði. Þeir röðuðu sér með nafntoguðum gæðingum eins og Blæ frá Hesti og Mettli frá Torfunesi og skákuðu öðrum góðum. Þeir voru hársbreidd frá því að komast í milliriðil og enduðu í 33. sæti með einkunnina 8,37. Tristan er 1.v. stóðhestur úr ræktun Magna okkar Kjartanssonar. Hann er undan gæðingamóðurinni Bliku frá Árgerði og ræktunarstólpanum Orra frá Þúfu.

Anna Sonja Ágústsdóttir keppti á Hrafntinnu frá Kálfagerði í B-flokki gæðinga. Hún hlaut einkunnina 7,89 og endaði í 98 sæti. Hrafntinna, undan hinum heimaræktaða Biskupi frá Saurbæ, hefur meðal annars hlotið 8,5 fyrir tölt, brokk og vilja í kynbótadómi. Anna Sonja var einnig fánaberi Funa á setningu mótsins. Var hún þar stolt okkar Funamanna og fyrirmynd.

Í unglingaflokki keppti Örn Ævarsson frá Fellshlíð á Aski frá sama bæ. Örn stóð sig vel og endaði með einkunnina 8,15 og í 58. sæti. Askur er undan Kormáki frá Flugumýri II og Dillu frá Litla-Garði, reið- og ræktunarhryssu Ævars bónda. Askur er í eigu Elínar húsfreyju í Fellshlíð og er hann eftirlæti allra þar á bæ enda mikill garpur og höfðingi. Þór bróðir Arnar mætti svo með systur Asks hana Þöll frá Fellshlíð undan Hróðri frá Refsstöðum. Þór og Þöll fengu 7,98 í einkunn og 46. sæti. Verður árangur þeirra að teljast frábær enda er Þöll lítt vön keppnishryssa og einungis 5 v. gömul.

Á meðfylgjandi mynd eru frá vinstri séð Örn, Anna Sonja og Þór en þau tóku öll þátt í setningarathöfn mótsins. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.

Formaður Funa
Valur Ásmundsson

Deila: